Upphaf framkvæmda á uppsetningu á gámabyggð á vinnubúðareit

10. nóvember 2020

Í september síðastliðnum var undirritaður samningur milli NLSH og Terra vegna gámahúsa á vinnubúðareit á lóð Landspítalans við Hringbraut.

Fyrirtækið mun reisa gámabyggð á vinnusvæðinu og um er að ræða mötuneytis- og fataaðstöðu ásamt tengigangi þar á milli.

„Í dag er verið að stilla undir undirstöður undir fyrsta áfangann þar sem munu rísa gámabúðir sem eru um 30 hús, matsalur, eldhús og hreinlætisaðstaða.

Fyrstu sjö húsin koma hingað inn á svæðið í næstu viku og síðan eftir það fáum við sendingar í hverri viku.

Þegar áfanga eitt lýkur verður hafist handa við áfanga tvö og verður heildarfjöldi húsa um 50 þegar öllu verður lokið.

Það er stefnt að þvi að fyrsta áfanga muni ljúka um áramótin“, segir Magnús Magnússon byggingameistari verksins hjá Terra verktökum.