Uppsteypa meðferðarkjarna á lokametrunum

22. nóvember 2023

Uppsteypa meðferðarkjarna hefur gengið vel og uppsetning útveggjaeininga hefst á næstu vikum að sögn Árna Kristjánssonar staðarverkfræðings Nýs Landspítala.

„Búið er að steypa síðustu þakplötuna og verður mjög áhugavert að fylgjast með útlitsbreytingu hússins á næstu misserum með uppsetningu útveggjaeininga. Uppsteypa hússins er á lokametrunum og mikill gangur er í uppsetningu stálvirkis og uppsteypu millibygginga, sem er síðasta púslið í meðferðarkjarnanum.

Vinna við bílastæða- og tæknihús er í fullum gangi, þar sem byrjað er að steypa á þriðju hæð yfir jörðu. Uppsteypa á bílakjallara undir Sóleyjartorgi gengur einnig vel þar sem verið er að slá undir og járna milliplötu í suðurhluta hússins. Jarðvinna fyrir rannsóknahús er á lokametrunum, þar sem töluvert efni hefur verið fjarlægt og uppsteypa mun hefjast á næstu vikum. Það er því mikill gangur í verkinu þessa daga,“ segir Árni.