Uppsteypa meðferðarkjarna, margt áunnist á liðnu ári

2. janúar 2024

Það má segja að margt hafi áunnist í framkvæmdum við Hringbraut á síðasta ári og einnig var hafist handa við ný verk. Meðferðarkjarninn hefur risið hratt upp úr jörðu og hefur náð endanlegri hæð sem er mikill áfangi, segir Árni Kristjánsson staðarverkfræðingur NLSH.

„Uppsteypa í bílastæða- og tæknihúsi er í fullum gangi og nú er unnið á þriðju hæð í bílastæðahluta og á annarri hæð í tæknihlutanum. Í bílakjallara undir Sóleyjartorgi er góður gangur í uppsteypu og búið að steypa milliplötu að hluta. Í byrjun janúar klárast uppsteypa meðferðarkjarnans, en þá hefst frágangur inni í byggingunni ásamt uppsetningu á vinnulýsingu. Stefnt er að uppsetning útveggjaeininga verði langt komin í lok ársins og þakfrágangur fylgi þar í kjölfarið. Ásýnd hússins mun með þessu breytast töluvert og fer að taka á sig endanlegt útlit. Undirbúningur á uppsteypu á rannsóknahúsi er hafinn og hefst uppsteypan strax á þessu ári. Áætlað er að uppsteypu bílastæðakjallara og á bílastæða- og tæknihúsi ljúki í haust. Byrjað er að grafa fyrir grunni byggingar Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og áætlað að uppsteypa hefjist á árinu. Það er því allt á fullri ferð í framkvæmdum nú í byrjun árs,“ segir Árni.