Uppsteypa meðferðarkjarna, undirbúningur að uppsetningu útveggjaeininga er hafinn

30. október 2023

Uppsteypa meðferðarkjarna gengur vel upp og undirbúningur fyrir uppsetningu útveggjaeininga er hafinn og munu fyrstu einingarnar verða settar upp í nóvember að sögn Árna Kristjánssonar staðarverkfræðings Nýs Landspítala.

„Einingarnar koma fullbúnar úr verksmiðju og eru festar í rennur, sem steyptar eru í burðarvirki hússins. Áætlað er að uppsetning eininganna taki um 14 mánuði, en á tímabilinu má búast við mikilli útlitsbreytingu á mannvirkinu. Uppsteypa hússins er á lokastigi, en töluverður gangur er í uppsetningu stálvirkis og uppsteypu millibygginga.

Uppsteypa í bílakjallara undir Sóleyjartorgi er í fullum gangi, en þar er búið að steypa fyrstu botnplötuna, þar sem 400 m3 af steypu var dælt í þennan plötuhluta og vinna hafin við uppsteypu á neðri hæðinni. Vinna við bílastæða- og tæknihús er í fullum gangi, þar sem byrjað er að steypa á 2. hæð yfir jörðu. Jarðvinna fyrir rannsóknahús er í vinnslu og reiknað með að uppsteypa hefjist þar á næstunni,“, segir Árni.