Uppsteypu meðferðarkjarnans miðar vel áfram

6. maí 2021

Uppsteypuverkefnið á nýjum meðferðarkjarna er að ganga vel, en aðalverktaki uppsteypu verksins er Eykt hf.

“Helstu verkþættir sem nú eru í gangi við uppsteypuna eru áframhaldandi vinna við mótauppslátt og járnabendingu undirstaðna. Einnig er áfram unnið við þrif á klöpp og þrifalagssteypur en sú vinna fer að klárast fljótlega.

Samhliða þessu stendur yfir vinna við jarðskaut og á næstunni hefst svo vinna við fyllingar og lagnir og botnplötu”, segir Eysteinn Einarsson staðarverkfræðingur hjá NLSH.

Eykt er aðalverktaki uppsteypunnar og er í samstarfi við Steypustöðina ehf.

„Við erum ennþá að steypa undirstöðurnar, það er gríðarlega stórt verkefni og gengur vel. Það hafa verið tíðar ferðir frá okkur undanfarnar vikur.

Samtals hafa farið um 4300 rúmmetrar af steypu og af því eru 2500 rúmmetrar bara í undirstöðurnar“ segir Kai Westphal framkvæmdastjóri Steypu, framleiðslu og dreifingar hjá Steypustöðinni.

 „Eins og fram hefur komið fylgjumst við vel með hitaþróun með aðstoð snjallnema sem staðsettir eru í miðri steypunni. Við höfum tileinkað okkur þessa nýjung til að fylgjast með steypunni og þetta er að gefast vel,“ segir Kai.