• New national hospital

Vegna hönnunar nýs Landspítala

30. mars 2010

Nú er hafin samkeppni um hönnun nýs Landspítala. Á íslenskan mælikvarða verður mannvirkið risavaxið og á það eftir að setja mikinn svip á borgina. Mikið er því í húfi að vel takist til með hönnun byggingarinnar og að mörgu er þar að hyggja. Mig langar að velta upp nýju sjónarhorni, áður en lengra er liðið á hönnunarferlið.

Meðal annars vegna forgengileika torfs og timburs eru mjög fá gömul hús ennþá uppistandandi hérlendis og aðeins hluti þeirra getur talist reisulegur. Glæsileg gömul hús eru enn færri og því er þeim mun meiri ástæða til að varðveita þau menningarverðmæti.

Gamla Landspítalahúsið er eitt þessara fáu, virkilega glæsilegu húsa frá fyrri tíð, sem okkur ber að varðveita fyrir komandi kynslóðir. Þar sem Landspítalinn stendur við eina mestu umferðaræð Reykjavíkur og er auk þess fallega upplýstur, er það sannfæring mín að þessi bygging veiti hundruðum, ef ekki þúsundum Íslendinga ánægju á hverjum degi. Hins vegar er eitt, sem oft vill gleymast í sambandi við varðveislu menningarverðmæta, að varðveislan ein og sér kemur að litlu gagni, ef enginn eða einungis fáir geta notið þessara verðmæta.

Ég efast ekki um að hönnuðir hins nýja Landspítala muni leggja sig fram við hönnun þessa verðandi minnismerkis og vonandi tekst þeim að sameina þar bæði notagildi og augnayndi. Ég vil samt skora á þá að tryggja að gamla Landspítalahúsið verði áfram vel sýnilegt, en samkvæmt fyrstu hugmyndum yrði framhlið þess falin öllum nema sjúklingum og starfsfólki hins nýja Landspítala. Verið nú vænir og gerið okkur mögulegt að dást áfram að þessu listilega hannaða mannvirki.