Vel gengur við uppsteypu meðferðarkjarna og á annað hundrað starfa við uppsteypuna

1. mars 2022

Uppsteypuverkefnið á meðferðarkjarna er að ganga vel þrátt fyrir vetraraðstæður, en aðalverktaki uppsteypu verksins er Eykt hf.

“Helstu verkþættir sem nú eru í gangi við uppsteypuna eru áframhaldandi vinna við mótauppslátt, járnabendingu, jarðskaut, fyllingar og lagnir í grunni,” segir Eysteinn Einarsson staðarverkfræðingur hjá NLSH.

“Vinna við undirstöður og botnplötur í neðri kjallara er á lokametrunum og klárast á næstu vikum. Samhliða er vinna við jarðskaut, fyllingar og lagnir í grunni einnig að klárast.

Vinna við undirstöður í efri kjallara er hafin. Í neðri kjallara er vinna við veggi og súlur í fullum gangi sem og frágangur kjallaraveggja og fyllingar að þeim og vinna við loftaplötur yfir neðri kjallara er í fullum gangi.

Vinna við uppsteypu veggja og súlna efri kjallara er hafin og mannvirkið þar með farið að teygja sig upp úr grunninum.

Vinna við stálvirki og vinna við fyrstu eftirspenntu plötur hefst í byrjun mars mánaðar.

Það er unnið af fullum krafti á framkvæmdasvæðinu og á annað hundrað manns starfa við uppsteypuverkefnið á nýjum meðferðarkjarna við ólíkar og krefjandi aðstæður,”segir Eysteinn.