Fugladansinn í meðferðarkjarnanum

9. júní 2023

Þó að uppsteypa meðferðarkjarnans sé á fullu þessa dagana var þess ekki lengi að bíða að húsið kæmi að góðu gagni. Fyrstu til að nýta sér nýbyggt húsið voru ýmsir fuglar sem gerðu sér hreiður þar sem skjólsælt var og hreiðurbúar létu sér fátt um finnast þó skarkali væri allt um kring og hver hæðin af annarri risi upp ofan við þá. Kunnugir segja að þarna hafi verið bæði starrar og þrestir á ferðinni og ekki annað vitað en ungviðið hafi dafnað inni í byggingunni. Hrafnapar hefur svo komið sér fyrir í einum krananum og þar sáust þrír sísvangir ungar. Auk þessa er varðsveit í flugtaksstöðu í næsta nágrenni því þegar dróni er á flugi yfir byggingasvæðinu kemur skrækjandi flugfloti tjalda á staðinn til að kanna og fylgja flygildinu eftir.