Verkefni fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri í farvatninu

7. júní 2023

NLSH hefur verið falið af heilbrigðisráðuneytinu að vinna að verkefnum fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) í samstarfi við sjúkrahúsið. Um er að ræða endurskoðun á frumathugun á byggingu legudeildar með það að leiðarljósi að nú í ár liggi fyrir ákvörðun af hálfu stjórnvalda um fyrirhugaða byggingu. Gert er ráð fyrir að endurskoðuninni ljúki á næstu mánuðum og búist er við að útboð á fullnaðarhönnun hússins fari fram á haustmánuðum. Þá mun NLSH tryggja að fram fari ástands-, eiginleika- og hentugleikaskoðun á eldri byggingum.

Með verkefninu á Akureyri er starfsemi NLSH komin ennþá lengra út fyrir framkvæmdasvæðið á Hringbraut en á s.l. ári hóf NLSH vinnu við stækkun Grensásdeildar Landspítala. Samþykktum NLSH ohf. hefur verið breytt og heimildir veittar félaginu til að sinna þessum verkefnum sbr. lög nr. 84/2001 um skipan opinberra framkvæmda og lög nr. 64/2010 um nýjan Landspítala.

Ef vel gengur með verkefnið á Akureyri má sjá fyrir sér að innan fimm ára verði ný bygging risin og breytingar gerðar á legudeildarstarfsemi í eldri byggingum spítalans.