• New national hospital

Hátækni

31. júlí 2006

Sá er þetta ritar hefir oft velt því fyrir sér hvað orðið hátækni stendur fyrir. Einu sinni fór hann með síma í viðgerð í fyrirtæki með þessu nafni. Hann spurði afgreiðslumanninn, hvar venjuleg tækni endaði og hátæknin byrjaði. Ekki gat maðurinn svarað þessu, en sagðist halda að fyrirtækið hafi verið látið heita þetta til að vörurnar gengju betur út.

Nú er talað um að byggja hátæknisjúkrahús við Hringbraut.
Þegar Landspítalinn var reistur (1929) stóð hann í jaðri þéttbýlisins. Hugmyndin var sú að í framtíðinni yrði spítalinn miðsvæðis, svo ekki yrði of langt fyrir fólk að fara. Á sjötta áratugnum var svo byrjað að byggja nýjan spítala nú í Fossvogi sem þá var "landbúnaðarhérað" langt utan við alla byggð, fimmtíu árum seinna stendur Borgarspítalinn í þyngdarpunkti þéttbýlis á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt aðferðafræði fyrri tíma skipulagsfræðinga ætti því að byggja nýtt sjúkrahús t.d. við Rauðavatn eða í Garðabæ.

Matthías Johannessen sagði einu sinni að miðbærinn væri alltaf þar sem ritstjórn Morgunblaðsins væri.

Fyrir mörgum árum setti Sveinn heitinn Tryggvason upp gistiheimili í Skipholti. Reksturinn gekk ekki og Rauði krossinn keypti heimilið og breytti í sjúkrahótel þ.e. gististað fyrir fólk utan af landi sem beið eftir plássi á "alvöru spítala". Eitthvað var talað um að leggja þetta niður. Þá skrifaði kona nokkur grein í Moggann og sagði frá því að fjöldi manns hefði bara læknast af góðum aðbúnaði þarna og skemmtilegheitum, fóru þeir bara heim án þess að komast á sjúkrahús.

Nú er sannað að sólargeislun hefir mikil á hrif á heilsu fólks, þegar sól er lágt á lofti eykur speglun frá vatnsyfirborði áhrif geislunarinnar. "Lágtæknisjúkrahús" yrði því ágætlega fyrirkomið norðan Rauðavatns. Við Vífilsstaðavatn gæti það líka verið en það var einmitt á Vífilsstöðum sem Eyjólfur sundkappi náði heilsu. Eyjólfur, þá barn, var þá búinn að liggja marga mánuði á Landspítalanum. Þegar honum versnaði spurði mamma hans yfirlækninn hvort hún mætti taka hann heim. Læknirinn svaraði því til, að það skipti engu máli hvort þessi drengur dræpist á spítala eða heima hjá sér.

Foreldrar Eyjólfs tóku hann heim og fengu pláss fyrir hann á Vífilsstöðum þar sem hann náði fljótlega heilsu í umsjá þeirra Helga Ingvarssonar yfirlæknis og Hauks pressara.