• New national hospital

Húsnæðismál Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) eru löngu komin í þrot og er nú svo komið að mjög erfitt er orðið að sinna grundvallarstarfsemi sjúkrahússins á ásættanlegan hátt. Aðstaða fyrir sjúklinga og aðstandendur er alls óviðunandi.

15. desember 2006

Frá því að Landspítalinn, nú Landspítali – háskólasjúkrahús, tók til starfa, hefur hann verið þungamiðja lækninga, verklegrar kennslu og læknisfræðilegra rannsókna hér á landi. Spítalinn er mikilvægasta stofnun íslenska heilbrigðiskerfisins og risavaxið "fyrirtæki" á íslenskan mælikvarða, bæði hvað snertir starfsmannafjölda og rekstrarkostnað. 



Um þessa stofnun er almennt mikil umræða í samfélaginu, eins og eðlilegt er. Umræðan hefur snúist um rekstrarform, rekstrarkostnað, deilur stjórnenda og dómsmál, skort á starfsfólki, mikið vinnuálag og fleira. Minna er rætt um gríðarlegt umfang starfsemi sjúkrahússins, vaxandi kostnað við einstaka rekstrarþætti, slakt húsrými á ýmsum deildum og verkefni, sem sjúkrahúsinu hefur verið gert að taka að sér, en eiga þar ekki heim. 

Á þessu ári mun nánast þriðji hver Íslendingur koma til einhverskonar meðferðar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Tölur sýna, að fyrstu 10 mánuði þessa árs komu 84.366 manns í sjúkrahúsið (taldar kennitölur) eða 8.436 að jafnaði hvern mánuð. Ef þessar tölur eru framreiknaðar til áramóta, og reiknað með 7% fjölgun á milli mánaða, þá verður heildarfjöldinn um 97 þúsund manns, eða því sem næst þriðji hver íbúi þessa lands. 

Langflestir koma á bráðamóttökur sjúkrahússins, eða um 6.800 manns hvern einasta mánuð. Þá má geta þess, að á göngudeilir Landspítala komu um 210 þúsund einstaklingar fyrstu 10 mánuði ársins. Sé miðað við þessa tölu, þá verður heildartalan 250 þúsund um áramót. Rétt er að taka fram, að hér er talinn fjöldi heimsókna á göngudeildir og bráðamóttökur, en ekki kennitölur. Margir sjúklinganna koma býsna oft. 

Öll heilbrigðisþjónusta takmarkast af þeim fjármunum, sem til hennar er veitt. Málaflokkurinn er nánast óseðjandi. Ný tækni, ný lyf, stöðugt stækkandi hópur aldraðra og fleiri og flóknari verkefni kalla linnulítið á meira fjármagn. Og þrátt fyrir stöðugar tilraunir til niðurskurðar og sparnaðar, hækka framlög til málaflokksins. Ekki verður unnt að hægja á þessari þróun né stöðva hana, nema með því að rjúfa samstöðuna um velferðarsamfélagið. 

Hins vegar er nokkur þversögn í því fólgin, að velferðin, neysluþáttur hennar, fjölgar einstaklingum í sjúkdómaflokkum, sem áður voru nánast óþekktir. Má þar nefna offitu, sykursýki og hjartakvilla margskonar. Á meðan forvarnir ná ekki að margfaldast frá því sem nú er og ekki verður hugarfarsbreyting meðal þegnanna, má ganga að því vísu, að útgjöld til Landspítala og annarra heilbrigðisstofnana gera ekki annað en að vaxa. Til að renna frekari stoðum undir þessa staðhæfingu má nefna, að stöðugt fjölgar í hópi aldraðra. Við lifum lengur og gamla píramítamyndin af aldursskiptingu þjóðarinnar er smátt og smátt að taka á sig ferningsmynd. Á Reykjavíkursvæðinu fjölgaði íbúum í heild um 6,8% á árunum 2000 til 2500. 70 ára og eldri fjölgaði um 11,3% og 80 ára og eldri um 25,2%. Þeir, sem í elstu hópunum eru, þarfnast hvað mest þjónustu Landspítalans. 

Stundum er spurt: Í hvað fara allir þessir peningar hjá Landspítalanum? Í fyrsta lagi er þess að geta, að launakostnaður sjúkrahússins er um 70% af öllum rekstrarkostnaði. Af þeirri fjárhæð rennur röskur þriðjungur til ríkisins aftur í formi tekjuskatta. Í öðru lagi má nefna, að stöðugt fjölgar dýrum og flóknum aðgerðum.

Núorðið er hægt að setja verðmiða á aðgerðir. Einstakir þættir hafa verið verðlagðir samkvæmt svonefndri DRG-flokkun. Nú er t.d. vitað, að liðskiptaaðgerð á mjöðm kostar 1 milljón 42 þúsund krónur, kransæðahjáveita (án hjartaleggjar) kostar 1,5 milljónir og kransæðahjáveita með hjartalegg kostar 2 milljónir 152 þúsund krónur. Keisaraskurður kostar 432 þúsund krónur og kransæðaþræðing 150 þúsund krónur. 

Þá er eins víst að fáir gerir sér grein fyrir legukostnaði hvern legudag á hinum ýmsu deildum. Á skurðlækningasviði er legukostnaður hvern dag um 51 þúsund krónur, á lyflækningasviði eitt, 43 þúsund, á kvennasviði 48 þúsund og á lyflækningasviði tvö 72 þúsund krónur. Þetta kostnaðarúrtak er frá tímabilinu janúar til og með maí á þessu ári. Inni í þessum tölum eru eftirfarandi liðir: launa- og læknakostnaður á legudeild, rekstrarkostnaður, þar með talinn lyfjakostnaður, heimfærður kostnaður og samkostnaður. 

Ef hins vegar er reiknaður út heildarkostnaður hvern legudag, þ.e. að bætt er við skurðstofukostnaði, skurðlæknakostnaði, rannsóknakostnaði, gjörgæslu- og göngudeildarkostnaði hækka fyrrnefndar tölur til mikilla muna. Á skurðlækningasviði hækkar þá legukostnaður á dag úr 51 þúsundi króna í 125 þúsund, á lyflækningasviði eitt hækkar kostnaðurinn úr 43 þúsund krónum í 74 þúsund, á kvennasviði úr 48 í 77 þúsund og á lyflækningasviði tvö úr 72 þúsund krónum í 93 þúsund. Rétt er að benda á það, að hér er miðað við kostnaðartölur frá fyrri hluta þessa árs, en frá því þessir útreikningar voru gerðir hafa m.a. fallið til breytingar á kjarasamningum. Tölurnar eru því eitthvað hærri nú. 

Af þessum tölum má vera ljóst, að það er ekki hagkvæmt, hvorki fyrir Landspítalann né íslenska ríkið, að nota sjúkrarúm á spítalanum til langlegu fyrir aldraða sjúklinga. Nauðsyn á fjölgun hjúkrunarheimila fyrir aldraða er augljós. Þessar tölur geta einnig skýrt þá viðleitni starfsmanna sjúkrahússins að stytta eins og unnt er legutíma sjúklinga, án þess að stofna öryggi þeirra í hættu. 

Stórir hlutar af húsnæði Landspítalans uppfylla ekki kröfur nútímans um góða aðstöðu sjúklinga og starfsmanna. Þetta húsnæði er barn síns tíma. Ef framkvæmdum við smíði nýs Landspítala verður ekki hraðað eftir mætti er hætt við að stefni í hreint öngþveiti. Skortur á starfsfólki, einkum hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum, hefur ekki bætt stöðu mála. Raunar er með nokkrum ólíkindum hvað starfsfólk hefur staðið af sér álagið. 

Þrátt fyrir þetta hefur starfsfólk Landspítalans náð umtalsverðum árangri á síðustu misserum og árum í að stytta hverskonar biðlista, sem oft hafa verið tilefni mikillar gagnrýni. Lækningaforstjóri sjúkrahússins segir í nýjum starfsemisupplýsingum, að bið eftir aðgerðum og annarri þjónustu hafi verið að styttast mjög og sé í flestum greinum orðin óveruleg. Bið eftir bráðaðkallandi aðgerðum sé engin og sé það stundum vanmetið í umfjöllun um starf spítalans. 

Velferðarsamfélagið fær ekki lengi staðist ef heilbrigðiskerfi þess bregst. Hér á landi hefur umræða um heilbrigðismál iðulega verið á fremur neikvæðum nótum og sjaldnast tíundað það sem vel er gert. Jafnvel er fullyrt, að íslenska heilbrigðiskerfið sé eftirbátur annarra sambærilegra í löndum þar sem eru velferðarsamfélög. Þessi fullyrðing er fráleit. Vera má að aðrar þjóðir hafi gert eitthvað betur en Íslendingar á einhverjum afmörkuðum sviðum heilbrigðismála, en það á ekki við um heilbrigðiskerfið í heild. 

Auðvitað eru skavankar á okkar heilbrigðiskerfi og má gera mun betur í geðheilbrigðismálum og umönnun aldraðra, svo dæmi séu nefnd. En sú gagnrýni, sem komið hefur fram á rekstri Landspítala – háskólasjúkrahúss, hefur oft á tíðum verið ósanngjörn og lítið verið byggt á staðreyndum um umfang starfseminnar, aðstöðu starfsmanna og sjúklinga og stöðugt auknum kröfum um niðurskurð og sparnað á sama tíma og sjúkdómaflokkum fjölgar og óskir um nýja og aukna þjónustu eru bornar fram.