• New national hospital

Hvað varð um símapeningana í stækkun Landspítalans?

21. október 2011

Ein af fjölmörgum spurningum sem berast vegna fyrirhugaðrar stækkunar á Landspítala er um símapeningana eða í raun fullnustu laga nr. 133/2005. Lögin snérust um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., en í 3. gr. laganna segir að verja skuli samtals 18.000 milljónum kr. til uppbyggingar Landspítala – háskólasjúkrahúss á lóð stofnunarinnar við Hringbraut í Reykjavík.

Þá þegar á árinu 2005 var í fjáraukalögum heimild á fjárlagalið 08-376, Bygging sjúkrahúss á lóð Landspítalans. Þar til lög nr. 64/2010, um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík voru samþykkt samhljóða á Alþingi, voru fjárheimildir ætíð samþykktar af Alþingi í fjárlögum hvers árs á fjárlagalið 08-376, enda er það í samræmi við lög um fjárreiður ríkisins nr. 88/1997.

En hvað um símapeningana? Söluandvirðið, 66,7 milljarðar króna, miðaðist við gengisskráningu Seðlabanka Íslands 27. júlí 2005. Skyldi greiðslan fara fram innan 5 virkra daga frá því að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins lægi fyrir og að því gefnu að stofnunin samþykkti söluna fyrir sitt leyti.

Samkeppniseftirlitið tilkynnti með bréfi, dags. 30. ágúst 2005, að stofnunin gerði ekki athugasemdir við söluna. Þann 6. september 2005 greiddu Skipti ehf. ríkissjóði kaupverð hlutafjár ríkisins í Símanum í samræmi við ákvæði kaupsamnings og fengu eignarhlutinn í Símanum afhentan.

Hin fyrrgreindu lög nr. 133/2005 um ráðstöfun fjársins gerðu ráð fyrir að 43 milljarða yrði ráðstafað til verkefna í tengslum við söluna á Landsímanum m.a. umræddar 18.000 milljarðar í stækkun Landspítalans. Fjármagn á fjárlagliðnum sem notað hefur verið, í hönnun og skipulag verkefnisins, frá árinu 2005 nemur um 945 m.kr. (miðað við verðlag hvers árs).  Það er því eðlilegt að spyrja hvað varð um mismuninn á 18.000 og 945.

Lögin um ráðstöfunin á símapeningunum voru afnumin

Við þann forsendubrest sem var staðfestur á haustmánuðum 2008, samþykkti Alþingi lög nr. 173/2008 um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þar eru einfaldlega hin fyrri sértæku lög um ráðstöfun símapeninganna felld úr gildi. Í 13. gr. segir "Lög um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., nr. 133/2005, eru felld úr gildi".

Í almennum skýringum með lögunum segir m.a. að í frumvarpinu sé lagt til að lög um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., verði felld úr gildi, sé það vegna gjörbreyttra aðstæðna í efnahagslífi þjóðarinnar frá því lögin voru sett. Þykir réttast að fella lögin hreinlega úr gildi og að ákvarðanir um fjármögnun framkvæmda og verkefna sem þar er fjallað um verði teknar árlega á vettvangi fjárlaga.

En hvað varð þá um símapeningana? Það sem eftir stóð af söluandvirðinu hefur orðið hluti af ráðstöfunarfé ríkissjóðs frá og með áramótum 2008/2009. Í raun voru símapeningarnir alltaf hluti af ríkissjóði og eftir að sérlögin voru felld úr gildi var þessum fjármunum ráðstafað í samræmi við fjárheimildir í fjárlögum hverju sinni. Birt er niðurstaða þess í ríkisreikningi ár hvert.

Núverandi heimildir um stækkun Landspítala byggja á lögum nr. 64/2010 en þar er gefin heimild til að standa að nauðsynlegum undirbúningi og láta bjóða út stækkun Landspítala við Hringbraut. Þá er það skýrt í lögunum að fyrir undirritun samninga að loknu útboði skal leita samþykkis Alþingis með almennum lögum.