Hvernig sorp og lín verður flokkað og flutt í nýjum meðferðarkjarna

11. desember 2020

Í nýjum meðferðarkjarna (nýju sjúkrahúsi) verður sett upp nýtt og fullkomið kerfi hvað varðar skipulag á sorpi og líni.

Um er ræða sjálfvirkt kerfi sem flytur annarsvegar sorp og hins vegar óhreint lín frá deildum til endastöðvar þar sem því verður safnað saman í gáma og grindur.

Þrjár tegundir af sorpi verðar fluttar og flokkaðar í endastöðinni. Það er almennt sorp, pappi og plast. Endastöðin verður í nýbyggingu sem verður nálægt innkeyrslu á lóð spítalans við Eiríksgötu.

Ingólfur Þórisson verkefnastjóri hjá NLSH:

„Með þessu móti verður þetta sorp og óhreint lín ekki flutt eftir göngum nýbygginganna heldur verður það flutt í lokuðu rörakerfi. Það er mikil bót fyrir umhverfið á spítalanum að losna við þessa flutninga af göngum spítalans“.

Hvort kerfi fyrir sig byggir á að flutt sé í lokuðum pokum eftir rörum sem eru 0,5 m í þvermál þar sem eitt rör er fyrir sorp og annað fyrir lín.

Pokarnir verða settir í lúgur á deildum og falla niður í kjallara. Þaðan eru þeir sogaðir eftir rörunum sem liggja um tengiganga að endastöðinni. Í endastöðinni er sjálfvirk flokkun eftir tegund sorps í þrjá sorpgáma. Línið fer sjálfvirkt í língrindur, eins og þær grindur sem nú eru í notkun á spítalanum.

Þessi tvö kerfi verða bæði í nýjum meðferðarkjarna og rannsóknahúsi þar sem öll rannsóknastarfsemi Landspítala verður sameinuð á einn stað.

Þau verða stækkanleg yfir í aðrar nýjar byggingar og eldri hús ef það verður ákveðið að koma þeim fyrir þar.

Sorp- og línkerfin eru nú þegar í samkeppnisútboði á vegum Ríkiskaupa og er fyrsta hluta þess lokið, en hann er áþekkur forvali.

Annar hluti samkeppnisútboðsins hefst í næstu viku og þá munu bjóðendur sem stóðust fyrsta hlutann bjóða í lausnir og setja fram verðtilboð, segir Ingólfur.