Í ýmis gömul horn að líta

21. september 2022

Í mörg horn er að líta þegar ráðist er í framkvæmdir eins og uppbyggingu spítalasvæðisins. Sú skylda hvílir meðal annars á aðilum að hlíta lögum um menningarminjar nr. 86/2012. Það er því ekki úr vegi að rifja upp að sumarið 2011 hófst umfangsmikil rannsókn um hvort að á spítalalóðinni leyndust fornleifar sem taka þyrfti tillit til í fyrirhuguðum framkvæmdum og við gerð nýs deiliskipulags fyrir svæðið. Ákveðið var að opna um 300 fermetra svæði þar sem forkönnun Fornleifaverndar hafði farið fram stuttu áður á suðvesturhluta lóðarinnar.

Þegar svæðið var opnað kom í ljós að mannvirki hafði staðið þar og nokkuð ljóst frá upphafi að leifar af tómthúsbýlinu Grænuborg var þar undir. Mannvistarleifarnar voru rétt undir sverði og þurfti því einungis að rífa torfið af. Við rannsóknina var beitt svokallaðari ´Single Contex‘ aðferðafræði, en sú uppgraftaraðferð fer fram á þá vegu að grafið er eftir jarðlögum, hvert jarðlag fyrir sig. Við verkið störfuðu fimm fornleifafræðingar, þar af einn uppgraftarstjóri.

Hluti lóðarinnar, þar sem leifar Grænuborgar stóðu, hefur verið notuð sem ruslahaugur á sínum tíma og því töluvert af þakflísum og öðru rusli frá 20. öldinni að finna í kjallara sem tilheyrði bænum sjálfum eða á þeim tíma er framkvæmdir hefjast við Landsspítalann árið 1925. Niðurstaða rannsóknarinnar 2011 var að ekki þyrfti að viðhafa sérstakar aðgerðir vegna þessa.