Saga býlisins Grænuborgar á lóð Landspítalans

23. september 2022

Áður en elsta hús Landspítalans var reist stóð lítið býli á jörðinni sem hét Grænaborg. Búseta var þar frá 1834 og til um 1918 en bæinn byggðu, og þar bjuggu í upphafi Gísli Gíslason og Sigríður Hinriksdóttir. Sonur þeirra, Hinrik Gíslason, tók við búinu og eftir fráfall hans bjó ekkja hans þar til ársins 1918. Jörðin var því farin í eyði áður en smíði elstu spítalabyggingarinnar hófst, um 1925. Til eru nokkur kort sem sýna hvar bærinn stóð, hið elsta frá 1913, teiknað af Benedikt Gröndal en annað nýrra sýnir líka staðsetninguna með tilliti til nýrri bygginga. Því hefur verið nokkuð ljóst alla tíð hvar Grænaborg stóð og þegar fornleifarannsóknir á lóð Landspítalans hófust var svæðið þar sem kortin sýndu bæinn grafið upp og þar komið niður á leifarnar af bæjarstæðinu.

Grænaborg hefur fallið í þann flokk að kallast tómthús en það búsetuform er skilgreint þannig:

“Þurrabúð (eða tómthús) er búskaparform við sjávarsíðuna þar sem menn bjuggu en voru hvorki sjálfstæðir bændur né vistráðnir hjá bændum, eða m.ö.o. menn voru sjómenn eða daglaunamenn í verstöð eða sjávarbyggð en höfðu ekki afnot af jörð eða héldu húsdýr.” Grænaborg hefur því ekki verið bújörð, og dýrahald væntanlega verið takmarkað eða ekkert. Tekjur heimilisins hafa þá verið í formi tilfallandi vinnu á sjó og landi.

Sjálf jörðin, eða lóðin, hefur verið um hálfur hektari að stærð. Uppgröftur árið 2011 leiddi í ljós tvær aðskildar byggingar þar sem önnur hefur verið 40 fermetrar að grunnfleti en hin 12 fermetrar að grunnfleti.

Ekki segir miklum sögum af íbúum Grænuborgar en þó er ljóst að lífsbaráttan hefur verið hörð en til er heimild þar sem hjónin þakka velgjörðaraðilum á hjartnæman hátt fyrir stuðning sem þeim var veittur í formi peninga.

Um þetta segir: “Ljóst er á þessum orðum að ekki hafi búskapurinn verið auðveldur hvað þá eftir að húsbóndinn varð sjónlítill. Ekki var það þó óalgengt að almúga fólk á þessum tíma þurfti að streða fyrir lifibrauði sínu og því lífið enginn hægðarleikur.“

Hinrik Gíslason, sem tók við búinu, vakti athygli og aðdáun fyrir eljusemi og um hann er þetta sagt: „Hinrik tók við verki föður síns að hreinsa grjót sem var á því túni sem þau höfðu yfir að ráða og gerði klárt til sláttu og beitar, en mikið af grjóti var á holtinu og í landinu umhverfis það. Því hefur þetta verið heljarinnar verk fyrir einn mann enda fékk hann lof fyrir af öðrum mönnum og góðan orðstír.“

Miðað við stöðu framkvæmdanna við meðferðarkjarnann myndi bærinn vera nokkurn veginn þar sem svokölluð fimmta stöng byggingarinnar er að rísa. Þó svo sveitabærinn Grænaborg hafi verið skammlífur þá lifir nafnið ennþá. Fyrst sem leikskóli sem reis nokkuð austar á lóðinni um 1931 en á Tímarit.is er að finna greinar sem fjalla um starfsemi seinni tíma Grænuborgar, þar sem Barnavinafjelagið Sumargjöf rak starfsemina. Eftir að leikskólinn Grænaborg hvarf af lóð Landspítalans um 1981 birtist nafnið samtímis í þriðja sinn sem leikskóli við Eiríksgötu, gegnt Hallgrímskirkju, og er þar starfandi enn.

Skemmtilegur vinkill er á ýmsum nafngiftum á götum og stöðum í Reykjavík, þar sem vísað er til horfinna sveitabæja, og er Grænaborg minnisvarði um það og heldur einnig á lofti erfiðri baráttu fátæks fólks fyrir vel rúmum 100 árum, og er það vel. Á myndinni sem fylgir með fréttinni má sjá eldra korti varpað á nýrra, og búið að merkja reit þar sem bærinn stóð og merkja útlínur elsta spítalans.

Heimildir: Grænaborg, úr borg í bæ (lokaskýrsla, rannsókn á fornleifum á lóð Landspítalans sumarið 2011). Fornleifaskráning Landspítalalóðar ( PDF ). Grein í Morgunblaðinu (1931).