Kynning NLSH hjá félagasamtökunum U3A

12. maí 2023

Félagssamtökin U3A,  Háskóli þriðja æviskeiðsins, stóðu nýlega fyrir kynningarfundi um verkefni Nýs Landspítala. Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri NLSH, mætti á fjölsóttan fund félagssamtakanna í aðstöðu þeirra að Hæðargarði í Reykjavík, þar sem farið var ítarlega yfir verkefni NLSH. Líflegar og áhugaverðar umræður sköpuðust í lokin. Með orðinu háskóli í nafni félagssamtakanna er átt við upprunalegu merkingu orðsins sem er hópur fólks sem vill helga tíma sinn því að fræðast og fræða. Þá segir U3A að þriðja æviskeiðið, megi kalla „hin gullnu fullorðinsár“. Þá er átt við þann tíma fullorðinsáranna sem einkennist af minni ábyrgð en fyrr á ævinni, oft viðunandi fjárhagsstöðu og góðri almennri heilsu. Þetta æviskeið, efri ár ævinnar í starfi og eftirlaunaaldurinn, getur varað í mörg ár og áratugi og í nútíma samfélagi á fólk margra kosta völ þegar kemur að því að leita lífsfullnægju og finna sér tilgangsrík viðfangsefni. Þau ár sem tengja má þessu skeiði eru breytileg frá einum einstaklingi til annars, en starfi samtakanna U3A Reykjavík er beint að árunum eftir fimmtugt. Heiti félagsins felur ekki í sér að félagsmenn skulu vera með háskólamenntun að baki. Allir eru velkomnir sem vilja miðla og/eða bæta við sig þekkingu.