Norskir ráðgjafar í heilbrigðistækni til liðs við NLSH

22. desember 2021

Norska ráðgjafafyrirtækið Nosyko hefur verið ráðið af NLSH til að undirbúa tækjakaup í nýja rannsóknahúsið en fyrirtækið var stofnað fyrir rúmum fimmtíu árum og hefur komið að mörgum verkefnum á sviði heilbrigðistækni, innan og utan Noregs. Af nýlegum verkefnum Nosyko má nefna ný sjúkrahús í Drammen og í Östfold en viðskiptavinir fyrirtækisins eru af fjölbreyttum toga og er það afar reynslumikið.

Að sögn Ingólfs Þórissonar, sviðsstjóra þróunar hjá NLSH, verður verkefninu skipt í áfanga en sá fyrsti verður að rýna áætlnir um tækjakaup og bera saman við reynslu frá öðrum sjúkrahúsum en stefnt er að skilum á áfangaskýrslu í janúar 2022 og svo endanlegri skýrslu af fyrsta áfanga í byrjun mars. NLSH hefur síðan val um áframhaldandi vinnu varðandi frekari undirbúning á kaupum á búnaði í rannsóknahúsið en að auki líta til þarfa á hugbúnaði og ráðgjöf varðandi hönnun og byggingu.

“Við bindum miklar vonir við samstarf við svo gamalgróið og reynslumikið sérhæft ráðgjafafyrirtæki, verkefninu til framdráttar” sagði Ingólfur að lokum.