Nýr forstjóri Landspítala skipaður

7. febrúar 2022

Heilbrigðisráðherra hefur skipað Runólf Pálsson forstjóra Landspítala til næstu fimm ára.

Runólfur starfar sem sérfræðingur í lyflækningum og nýrnalækningum á Landspítala.

Hann tók í október 2021 tímabundið við starfi framkvæmdastjóra meðferðarsviðs á Landspítala af Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur meðan hún hefur gegnt starfi forstjóra spítalans.

Runólfur lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1985, sérfræðinámi í lyflækningum frá Hartford Hospital og University of Connecticut árið 1991 og sérfræðinámi í nýrnalækningum frá Massachusetts General Hospital og Harvard Medical School árið 1996.

Hann hefur starfað á Landspítala samfellt frá árinu 1996 og hefur gegnt þar ýmsum stjórnunarstöðum, síðast starfi forstöðumanns lyflækninga- og bráðaþjónustu áður en hann varð tímabundið framkvæmdastjóri meðferðarsviðs.

Hann er jafnframt prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og varaforseti deildarinnar.

Runólfur tekur við starfinu 1. mars næstkomandi.