Tillaga að deiliskipulagi samþykkt í skipulagsráði

3. desember 2012

Skipulagsráð samþykkti í dag tillögu að deiliskipulagi á lóð Landspítalans við Hringbraut. Fjórir fulltrúar ráðsins greiddu atkvæði með tillögunni, tveir fulltrúar besta flokksins og tveir fulltrúar Samfylkingar. Þrír fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði á móti tillögunni.

Hjálmar Sveinsson, fulltrúi Samfylkingar í skipulagsráði segir í samtali við mbl.is að vandlega hafi verið farið yfir athugasemdir um umferðarmál sem bárust á kynningarferlinu og gerðar hafi verið ýmsar úttektir þar að lútandi. „Það er vel skiljanlegt að allar þessar athugasemdir hafi borist. Þær lúta einkum að þrennu, staðsetningu, byggingarmagni og umferðarmálum. Við teljum að það hafi verið sýnt fram á að staðsetningin sé skynsamleg, umferðarmálin ásættanleg og að byggingaraðilar hafi fært rök fyrir því byggingarmagni sem þeir telja nauðsynlegt,“ segir Hjálmar í viðtali við mbl.is 

Fá mál fengið jafnmikla kynningu og umfjöllun í skipulagráði
Í bókun meirihlutans segir meðal annars að undirbúningur að uppbyggingunni hafi staðið yfir í meira en 10 ár og fjölmargar skýrslur og úttektir verið unnar um fyrirhugaða uppbyggingu: staðsetningu, byggingamagn og umferðarmál. Fá mál hafi fengið jafnmikla kynningu meðal almennings og umfjöllun í skipulagsráði. Þá segir ennfremur „Hinar fjölmörgu athugasemdir sem borist hafa eru skiljanlegar. Samhljóma athugasemdir bárust á fyrri stigum. Þær höfðu áhrif á endanlega útfærslu skipulagsins. Nákvæm og ítarleg svör við öllum athugasemdum liggja nú fyrir. Skipulagsráð telur að þar sé með sannfærandi hætti sýnt fram að staðsetning nýja spítalans er skynsamleg, að umferðarmál séu ásættanleg og þörf á byggingarmagni vel rökstudd af uppbyggingaraðila.“


Sjálfstæðimenn segja uppbyggingu óraunhæfa 
Þrír fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn tillögunni en í bókun þeirra segir meðal annars að gríðarlega sterk viðbrögð hafi borist við auglýstum skipulagstillögum um Landspítalann og engin fordæmi séu fyrir svo vel rökstuddum athugasemdum.  
Þá segir einnig: „Með afgreiðslu skipulagsráðs í dag er verið að glata einstöku tækifæri til að styrkja spítalastarfsemi á svæðinu með skynsamlegri uppbyggingu í sátt við eldri byggð. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fallast ekki á slíka óraunhæfa uppbyggingu sem mun verða óafturkræf og í engu samræmi við þá byggð sem þar stendur nú, hvorki á reitnum né í nærliggjandi hverfum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa greitt atkvæði gegn tillögunni og gert grein fyrir afstöðu sinni á fyrri stigum.“