Upplýsingatækni í notkun hjá NLSH

4. nóvember 2022

Auk ýmiss konar hefðbundins hugbúnaðar notar NLSH þrenn önnur sérhæfð í starfseminni varðandi byggingaframkvæmdir en nefna má það í framhjáhlaupi að nánast allt sem NLSH notar er skýjaþjónusta. Fyrst skal nefna Procore, sem er bandarískt. Grunnur þjónustunnar kallast “company level” en ofan á þann grunn er bætt við verkefnum (projects) og hvert slíkt er afmarkað “síló” sem síðan inniheldur margskonar svæði þar sem einstökum þáttum er sinnt. Þar má nefna teikningar, orðsendingar og verkbeiðnir, ljósmyndir, óhappatilkynningar, leiðbeiningar, fundaraðir og margt fleira, auk tilbúinn eða sérsniðinna skýrslna. Útfrá grunninum er haldið utan um notendaskrá og þeim er úthlutað þaðan inn á einstök verkefni og réttindi eru mjög sveigjanleg og nota má app til að fá upplýsingar um alla þætti á verkstað. Sjá Procore.com

dRofus er gagnagrunnsþjónusta sem á rætur til Noregs og hefur það hlutverk að halda utan um rými innan bygginga, þar sem mögulegt er að skrá í þaula allt sem þeim tilheyrir og þannig geta notendur og hönnuðir haft grunn til að setja inn búnað og tilgreint eiginleika rýma frá margskonar vinklum. Einn eiginleiki dRofus er að búa má til sniðskjal, líkt og í ritvinnslu, þar sem sniðskjalið er til dæmis grunneiginleiki rýmis og það flýtir fyrir og eykur nákvæmni við að mynda rými sem eru endurtekin en hafa sama grunnhlutverk. Sjá drofus.com

Trimble eru tæki til að skoða í rauntíma blöndu af raunverulegum aðstæðum og þrívíddarhönnunarteikningum. Til þess eru notuð hárnákvæm GPS-hnit. Þannig er hægt á verkstað að sjá bæði hvernig raunverulegar aðstæður eru miðað við fyrirhugað verk en einnig að sjá framgang verka þar sem teikningum er skeytt saman við raunveruleikann.