Uppsetning útveggja meðferðarkjarna gengur vel

14. febrúar 2024

Litháenska verktakafyrirtækið Staticus er nú í óða önn að raða útveggjaeiningum utan á burðarvirki meðferðarkjarnans.

„Verkið er eðli málsins samkvæmt mjög háð veðri og má því segja að fáir fagni ótímabæru vori af meiri innlifun en litháensku vinir okkar. Þegar uppsetningin verður komin á fullan skrið má búast við að allt að því 100 útveggjaeiningar fari upp í hverri viku. Í síðustu viku voru settar upp 80 einingar og hver eining er 1,3 m á breidd og rúmlega 4 metrar á hæð,” segir Ásbjörn Jónsson sviðsstjóri framkvæmdasviðs.