Við bindum vonir við að eignast nútímalegt sjúkrahús, segir Bjarni Benediktsson, fjármála – og efnahagsráðherra

19. apríl 2021

Bjarni Benediktsson, fjármála – og efnahagsráðherra er í viðtali í kynningarriti NLSH sem var gefið út nýlega.

„Við höfum lengi horft á þetta verkefni með þá von í brjósti að við getum eignast nútímasjúkrahús sem mætir okkar helstu þörfum. Að við eignumst þjóðarsjúkrahús sem býður upp á alla aðstöðu fyrir sjúklinga og starfsfólk í landi sem vill vera fremst meðal þjóða,“ segir Bjarni.

„Ég er viss um að við verðum stolt af spítalanum þegar hann er risinn, Spítalinn er að verulegu leyti í gömlu úreltu húsnæði sem mætir illa þörfum nútímans og þörf á að vinna bug á því ástandi. Því miður hefur þetta verkefni verið of lengi að komast af hugmyndastigi til framkvæmda

Bjarni segir að fjármálakrísan árið 2008 hafi kennt landsmönnum margt. „Það er ekki hægt að segja að við séum í sambærilegri stöðu nú í heimsfaraldrinum og þá. Það var annars konar áfall og aðstæður á lánamörkuðum allt aðrar. En viðbragð okkar á þeim tíma var að slá á frest öllum framkvæmdum á innviðum auk þess sem ríkisútgjöld voru lækkuð.“ Nú sé önnur leið farin. „Nú beitum við ríkisfjármálunum og þeim styrk sem við getum sótt þangað til að veita mótvægi.“

Of lítið fjárfest

Bjarni segir að þegar horft sé til baka finnist honum fjárfestingastig ríkisins hafa verið full lágt. Yfirsýnin hafi hins vegar aukist. Ríkið ýti því ekki vandanum á undan sér heldur takist á við hann. Þess vegna hafi ekki komið hik á ríkisstjórnina að fylgja eftir uppbyggingu Landspítala. „Þetta er stærsta einstaka ríkisframkvæmd sem við höfum ráðist í síðari ár.“

Bjarni segir að þjóðhagslegur sparnaður felist fyrst og fremst í því að auka afköstin. „Ég sé ekki fram á að við séum að draga úr fjárheimildum til sjúkrahússstarfseminnar vegna þessarar uppbyggingar heldur er kannski nær að tala um að útgjöldin muni vaxa hægar vegna þess að afköstin eru að aukast,“ segir hann.

„Við bindum vonir við að eignast hér nútímalegt sjúkrahús sem að mætir þörfum landsmanna. Þar sem skilvirki og öryggi haldast í hendur.“