Viðamikil verkefni á borði þróunarsviðs

13. ágúst 2021

Helstu verkefni þróunarsviðs NLSH þessa daga eru á sviði heildarskipulags húsnæðis Landspítala, stoðbyggingar á Hringbrautarlóð, tæknikerfi bygginga á Hringbrautarlóð og lækninga- og rannsóknartæki ásamt upplýsingakerfum.

“það eru mörg verkefni fram undan hjá þróunarsviðinu og má þar helst nefna heildarskipulag bygginga Landspítala. Við erum að kortleggja nýtingu húsnæðis spítalans og vinna að áætlunum um framtíðarnýtingu þess”, segir Ingólfur Þórisson sviðsstjóri þróunarsviðs.

Einnig er verið að vinna að forathugun á nýtingu Vífilsstaða sem hjúkrunarheimilis og lýkur þeirri vinnu í þessum mánuði. Rýni á þyrlupalli Landspítala mun ljúka á næstu vikum. Stoðbyggingar eins og vörumóttaka, flokkunarstöð og eldhús eru nú í forathugun. Tæknikerfi eins og rörpóstur og sorp- og línflutningakerfi eru komin á hönnunarstig með framleiðendum. Samið hefur verið við Mannvit, Verkís og Lotu um hönnun miðlægra tæknikerfa sem verða staðsett í nýju bílastæða og tæknihúsi. Ráðgjafafyrirtæki er að rýna áætlanir um kaup lækningatækja og í haust mun hefjast vinna við undirbúning útboða og innkaupa á búnaði í nýbyggingarnar, segir Ingólfur.